Blogg

 

Takk fyrir 2017 og gæfuríkt 2018!

 

Við viljum þakka viðskiptavinum Ethic um allt land fyrir viðskiptin á árinu sem er að líða. Við erum ótrúlega þakklát fyrir frábærar viðtökur á árinu og förum full tilhlökkunar inn í nýja árið með ný og stærri markmið. Við stefnum á  að litla netverslunin okkar haldi áfram að stækka og dafna á árinu 2018 og erum við þegar farin að skoða ný og spennandi merki til að bæta við vöruúrvalið (nánar um það á næstu vikum) ásamt því að byggja ofan á gott samstarf við þau merki sem við erum þegar með eins og Kavat, People Tree, Frieda Sand, Fortress of Inca, Exallo og MUD jeans.

 

Núna er rúmt ár síðan við vorum á fullu að undirbúa opnun ethic.is og hefur þetta ævintýri verið ótrúlega skemmtilegt, lærdómsríkt og krefjandi. Draumurinn varð að veruleika í apríl 2017 þegar ethic.is fór í loftið og höfum við lært helling á þessu ári sem snýr að verslunarrekstri en við höfðum enga reynslu né þekkingu á slíku áður en farið var af stað. Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt og reka okkur á það sem má gera betur og verðum reynslunni ríkari með hverjum deginum.

 

Umhverfisvernd,siðferði og FairTrade skipta okkur mjög miklu máli og veljum við okkur samstarfsaðila út frá þeirra stefnu og markmiðum hvað þetta varðar.

 

Það er okkar samfélagslegaábyrgð að hugsa vel um náttúruna og stefna okkar er að leggja örlítið að mörkum með því að planta einu tré fyrir hverja selda vöru og þar með jafna kolefnisspor ethic sem verður til við flutning á vörum til Íslands og frá okkur til viðskiptavina. Gróðursetning fer fram vorið 2018 fyrir allar vörur seldar árið 2017.

 

Við viljum einnig þakka Kaffi Laugalæk fyrir samstarfið á árinu og öllum þeim sem gerðu sér ferð til að kíkja á okkur þar. Við stefnum á að koma reglulega í bæinn með Pop Up verslun á nýju ári.

 

Okkar bestu óskir um gæfuríkt nýtt ár. Þökkum fyrir viðskiptin á liðnu ári.

 

Við tökum á móti 2018 með opnum örmum og öllum þeim verkefnum og ævintýrum sem það hefur upp á að bjóða. Munið að NJÓTA því lífið er núna.

 

Kveðja,

Matthías og Hafrún

Ethic

 

 

 

 

Hver býr til fötin þín?

 

Alþjóðlegi Fair Trade dagurinn var í gær 13. maí og þar sameinast aðilar í fimm heimsálfum og halda uppá hinn alþjóðlega Fair Trade dag. Manneskju keðjur eru myndaðar af framleiðendum, kaupendum og öðrum áhugamönnum um Fair Trade til að sýna skuldbyndingu þeirra við Fair Trade, jörðina og leiðina að sjálfbærri þróun.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í gegnum tíðina hef ég ekki mikið pælt í því þegar ég versla mér fatnað eða skó, hvaðan varan er framleidd, hver bjó vöruna til eða úr hverju varan er búin til úr. Bæði hefur maður fylgt ákveðnum tískustraumum þó svo ég hafi oft á köflum synt á móti straumnum. Til að mynda var mín kynslóð sem fór í gegnum tískustrauma eins og kraftgallann, vinsælu buffalo skóna, smellibuxurnar og gallabuxur úr Gallabuxnabúðinni í allskonar litum svo fátt eitt sé nefnt, en ég hafði ekki mikla þörf fyrir að vera eins og allir aðrir.

 

Ég verslaði það sem mér fannst flott án þess að pæla í gæðum, endingu og öllu sem snýr að siðferðislegum þáttum.

 

Ósjaldan hef ég staðið mig að því að vera að kaupa eitthvað drasl. En battnandi mönnum er best að lifa eins og einhver sagði. Því þetta skiptir mig miklu meira máli í dag eftir að ég fór að kynna mér þetta betur. Eftir að ég sá heimildarmyndina sem gerð var um harmleikinn í Rana Plaza verksmiðjunni árið 2013 í Bangladesh þar sem 1.135 starfsmenn létu lífið þegar verksmiðjan hrundi til grunna þá kveiknaði eitthvað inn í mér. Það skiptir mig máli að vita að vörurnar sem ég versla og nota séu framleiddar á siðferðislegan réttan hátt.

 

Við heilluðumst að hugmyndarfræði People Tree og hvað þau taka fair trade alla leið.

 

People Tree er í samvinnu við nokkra framleiðendur sem allir hafa Fair Trade að sjónarmiði. Assisi Garments er einn af þeim og er staðsett á Indlandi. Assisi Garments er stofnað árið 1994 af St.Francis nunnum og framleiða ekki aðeins falleg föt heldur skaffa líka vinnu fyrir heyrnalausa, mállausa og konur í fjárhagsvanda. Assisi virkar sem athvarf fyrir konur og veitir þeim öruggt umhverfi og meðal annars vegna framleiðsunnar fyrir People Tree hefur starfsemin vaxið og dafnað. Öll bómull sem er notuð af Assisi er lífrænt ræktuð og GOTS vottuð (Global Organic Textile Standards). Núna vitið þið aðeins meira um Assisi Garments sem framleiðir hluta af þeim vörum sem við seljum frá People Tree. Á öllum flíkum People Tree kemur fram hver framleiðir þær ásamt smá upplýsingum um framleiðandann.

 

 

Creative Handicraft er annar framleiðandi sem gerir mikið af flíkum fyrir People Tree. Creative Handicraft er staðsett í Mumbai og vinnur að því að veita konum í fátækrahverfum (slum) Mumbai fjárhagslegt sjálfstæði. Starfsmennirnir eru meðeigendur í fyrirtækingu og markmiðið er að styrkja konur félagslega, menningarlega og fjárhagslega og árið 2005 skráði Creative Handicraft hjá Fair Trade Network. Áherslan hjá Creative Handicraft er ekki eingöngu á þær konur sem starfa hjá þeim, heldur fjölskyldur þeirra og sérstaklega börnin. Æðislegar flíkur úr Tencel eru framleiddar hjá Creative Handicraft í Mumbai og við erum stolt að geta boðið þær á Íslandi í gegnum ethic.is.

 

 

 

Á næstu vikum munum við segja ykkur nánar frá fleiri framleiðendum sem vinna fyrir People Tree og hvernig þeir stuðla að því að veita fólki í neyð atvinnu og aðra grunnþjónustu sem því miður er ekki sjálfsagður hlutur út um allan heim. 

Kveðja, ethic

 

 

Að finna gleði í skáp fullum af ringulreið

 

Margir kannast eflaust við það með hækkandi sól og vorilminn í loftinu að taka góða vortiltekt á heimilinu.

 

Ég tók eina slíka nú á dögunum þar sem ég gekk frá vetrarfötunum og fór í gegnum fataskápa fjölskyldunnar. Ég tók frá fatnað sem strákarnir mínir eru hættir að nota eða vaxnir upp úr. Margt að þessum fatnaði var enn mjög heillegur og því fannst mér upplagt að gefa fötunum framhaldslíf, indæl vinkona mín tók við þeim með glöðu geði.

 

Sama gerði ég við fataskáp okkar hjóna. Ég hef haft þá reglu að taka skápinn minn sérstaklega fyrir svona jafnt og þétt yfir árið. Þegar skápurinn minn er farinn að líta út eins og hvirfilbylur hafi farið þar um þá veit ég að það er kominn tími til að endurraða og flokka hvað ég nota og hvað ég er hætt að nota.

 

Ég flokka fötin mín yfirleitt í þrjá flokka, 1. það sem ég nota reglulega, 2. það sem ég nota ekki en mun mögulega vilja nota aftur, 3. það sem ég er hætt að nota.

 

Þau föt sem ég flokka undir það sem ég mögulega nota aftur set ég niður í kassa og hef neðst í fataskápnum. Ég fer svo reglulega í gegnum þennan kassa og flokka úr honum aftur, það kemur fyrir að ein og ein flík fer aftur í fataskápinn en restin sem ég hef ekki hreyft við lengi fær framhaldslíf á nýjum stað t.d með því að gefa áfram, selja eða til Rauða Krossins.

 

Það sem mér leið vel eftir þessa tiltekt, fannst mikill léttir að vera búin að fara í gegnum skápana því þar leyndist heldur betur fullt af fatnaði og skóm sem aðrir fá nú góðs að njóta.

 

Ég hef oft velt því fyrir mér þegar ég tek svona skápatiltekt, af hverju að eiga t.d fimm svarta basic boli þegar það er nóg að eiga einn góðan? Af hverju höfum við oft þá þörf að þurfa að kaupa okkur nýja flík fyrir hvert tilefni sem við förum í? Oftar en ekki eigum við flíkur sem við notum kannski bara í eitt skipti svo fær flíkin að rykfalla inn í skáp um ókomin ár.

 

En svo eru auðvita flíkurnar sem hafa eitthvað persónulegt gildi, flík sem geymir einhverjar góðar minningar sem við getum engan vegin látið frá okkur.

 

Í gegnum tíðina hef ég verið mjög dugleg að geyma föt sem ég hugsa “ég kem örugglega til með að nota þetta aftur”, eða “þetta kemur aftur í tísku”, eins föt sem ég hef hætt að passa í en geymi í von um að passa í þau aftur einhvern daginn. Það eru ekki mörg ár síðan að ég losaði mig við mikið af þessum fötum sem ég var búin að geyma í hátt 10 ár.

En samt hélt ég alltaf í ákveðin föt áfram. Sem dæmi hef ég alltaf haldið upp á uppáhalds gallabuxurnar mínar sem mamma mín gaf mér þegar ég var 17 ára. Þetta voru Calvin Klein gallabuxur og voru geðveikar á sínum tíma og kostuðu sitt. En eftir þrjár meðgöngur og 18 árum seinna þá er það útséð að ég kem ekki til með að fara í þær aftur. Þær fengu loksins nýtt framhaldslíf nú í síðustu viku þegar ég fór með þær í Rauða krossinn, en þær verða mér alltaf mjög kærar í mínum huga og vona ég að einhver þarna úti geti nýtt þær áfram.

 

Eftir sem ég hef elst og þroskast og orðið meðvitaðari um mikilvægi náttúrunnar og það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að hugsa vel um náttúruna og okkur sjálf þá hef ég lagt það í vana að reyna að kaupa vandaðari og endingargóðan fatnað með siðferði/fair trade að leiðarljósi. Ég versla einnig töluvert af second hand fatnaði. Er dugleg að nota það sem ég á og spá meira í það þegar ég versla mér föt hvort þetta sé eitthvað sem mig vantar og hvernig það nýtist við það sem ég á nú þegar í fataskápnum.

 

Máltækið " Sælla er að gefa en þiggja" á vel við eftir góða skápatiltekt, það er góð tilfinning að láta gott af sér leiða og um leið á ég glaðan fataskáp.

 

 

 

Kveðja, ethic

 

 

 

Velkomin á ethic bloggið 

 

Nú er að verða liðinn mánuður síðan Ethic netverslunin okkar fór í loftið og erum við ótrúlega ánægð með viðtökurnar. Við finnum að þörfin og áhuginn fyrir verslun eins og Ethic er til staðar. Okkur hlakkar til að halda áfram að bjóða ykkur fallegar gæða vörur sem eru framleiddar á umhverfisvænan og siðferðislega réttan hátt.

 

En af hverju að velja að versla á umhverfisvænan og siðferðislegan hátt? Af hverju að velja slow fashion fram yfir fjöldaframleidda vörur?


Það að versla á umhverfisvænan og siðferðislegan hátt er ekki alltaf einfalt. Það er erfitt að skuldbinda sig 100% og fara alla leið og það er í góðu lagi! Gott er að velja þau gildi sem eru mikilvægust fyrir þig því það er mjög erfitt að stunda fullkomlega siðferðislega rétt innkaup.

 

Hér að neðan fjöllum við stuttlega um nokkrar af algengustu leiðunum til að versla á siðferðislega réttan hátt og hvað hver þeirra þýðir. Þú getur svo ákveðið hvað þér finnst mikilvægast hvað varðar siðferðislega, sjálfbæra og hæga tísku.

1. Vörur framleiddar í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar eru strangir staðlar hvað varðar umhverfisvernd, öryggi, heilsu og almenn réttindi starfsmanna svo sem lágmarkslaun, fæðingarorlof og sjúkratryggingar.


2. Kauptu Fair Trade vörur. Legðu áherslu á að styðja fyrirtæki sem virða mannréttindi og borga starfsmönnum sanngjörn laun. Ekki er öll erlend framleiðsla slæm. Kynntu þér framleiðendurnar vel og skoðaðu t.d heimasíður þeirra og hvað kemur þar fram hvað varðar sanngjörn viðskipti/FairTrade. World Fair Trade Organization (WFTO) er stofnum framleiðenda sem eru fremstir í dag hvað þetta varðar og gott er að leita eftir því að framleiðendur séu meðlimir í WFTO.

 

Flestir muna eftir harmleiknum í Rana Plaza verksmiðjunni árið 2013 í Bangladesh þar sem 1.135 starfsmenn létu lífið þegar verksmiðjan hrundi til grunna. Þúsundir starfa ennþá fyrir lítil sem engin laun við skelfilegar aðstæður í svokölluðum “sweat shops” sem framleiða fatnað fyrir mörg af þekktustu fatamerkjunum í dag. Reyndu að velja vörur sem eru framleiddar við góðar aðstæður, en ekki þar sem framleiðendur komast upp með að mismuna starfsfólki og nota jafnvel börn til að starfa við framleiðsluna.


3. Leitaðu að Eco-friendly/eiturefnalausum og lífrænum efnum. Efni og litarefni í fataframleiðslu eru skaðleg, ekki bara fyrir umhverfið heldur einnig fyrir starfsmenn sem búa til fötin og neytendur sem klæðast þeim. Verslaðu flíkur úr lífrænum efnum og með náttúrulegum litum. Þær eru betri fyrir umhverfið, starfsmennina sem framleiða fötin og þig sem neytanda. Allir okkar birgjar eru mjög framarlega hvað þetta varðar.  


4. Hugsaðu um umhverfisvernd. Verslaðu vörur úr náttúrulegum efnum sem skaða ekki umhverfið. Þú vilt t.d leita að vefnaðarvöru sem leysist upp náttúrulega í stað þess að liggja í landfyllingu svo áratugum skipti.

 

5. Veldu vegan ásamt því að hugsa um velferð dýra.


6. Notaðu það sem þú verslar! Keyptu frekar færri vörur sem endast lengur og notaðu þær oft. Þegar þú ert hætt/ur að nota vörurnar gefðu þeim þá framhaldslíf. Gefðu þær til góðgerðamála eða einfaldlega á einhvern stað þar sem þú veist að þær munu nýtast vel.

Byrjaðu smátt og verslaðu 1-2 flíkur sem framleiddar eru á siðferðilslega réttan hátt. Þú þarft ekki að skipta út öllum fataskápnum á einu bretti, þó það væri mjög íslenskt að fara “ALL IN” frá fyrsta degi.

 

Hugsaðu útí hvað skiptir þig mestu máli og forgangsraðaðu svo eftir því.

 

Mikið af góðum upplýsingum er að finna á heimasíðu World Fair Trade Organization ww.wfto.com/

 

Kveðja, ethic.